Það er víst ekki bara í RIoja sem þeir kunna að gera góð vín, Spánverjarnir. Sum af þeirra bestu vínum koma frá öðrum héruðum, og er þá sérstaklega horft til Ribera del Duero. Ribera del Duero er aðeins fyrir sunnar Rioja, og liggur meðfram ánni Duero, sem í Portúgal heitir Duoro og meðfram henni er samnefnt vínræktarhérað sem er það mikilvægasta í Portúgal. Í Ribera del Duero eru nær eingöngu ræktaðar rauðar þrúgur, einkum Tinto Fino (Tempranillo), Cabernet Sauvignon, Malbec og Merlot. Eina hvíta þrúgan sem ræktuð er í héraðinu heitir Albillo og hún er ýmist notuð til íblöndunar í rauðvín (hefur áhrif á ilminn) eða til hvítvínsgerðar. Þó svo að víngerðin í Ribera del Duero sé mjög svipuð og í Rioja, þá eru vínin yfirleitt nokkuð ólík, sem endurspeglar mismunandi jarðveg í þessum héruðum. Vín frá báðum héruðum geta elst vel og lengi, og sama reglugerð gildir um geymslu þeirra og nafngift í Crianza, Reserva og Gran Reserva.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá framleiðanda sem heitir Bodegas Arzuaga Navarro. Vínið er gert úr Tempranillo (eða Tinto Fino, eins og hún heitir í Ribera del Duero) og hefur fengið að liggja í 6 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik áður en vínið var svo sett á flöskur. Fyrri árgangar þessa víns hafa verið að fá á bilinu 87-90 stig í einkunn hjá Robert Parker undanfarinn áratug. Þetta vín er ekki ætlað til langrar geymslu heldur nýtur það sín best ungt.
Arzuago Navarro La Planta 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt. Í nefinu eru skógarber, leður, fjólur, hindber og pipar. Í munni eru hrá tannín, góð sýra og þokkalegut ávöxtur. Skógarber, leður og tóbak í ágætu eftirbragðinu. Góð kaup (2.498 kr). 87 stig.