Já, það er sko alltaf hægt að fá sér meira Rioja, einkum ef það er úr hinum frábæru 2010 og 2011 árgöngum. Ég vona að lesendur Vínsíðunnar séu ekki farnir á þreytast á þessum lofsöng mínum um þessi vín, en ég fullvissa ykkur um að það er full innistæða fyrir þessu hrósi.
Víngerð LAN er nokkuð ung að árum – hóf starfsemi sína árið 1972. Nafnið LAN er dregið af þeim héruðum sem saman mynda DOC Rioja – Logroño (Logroño er reyndar borg sem er innan La Rioja), Alava and Navarra.
Vín dagsins
Vín dagsins er Gran Reserva, sem þýðir að það þarf að liggja í minnst 2 ár á tunnu og 3 ár í flösku áður en það fer í sölu. Þetta vín hefur fengið að liggja tilskilinn tíma á tunnum úr franskri og amerískri eik, en víngerðin kveðst einnig nota s.k. hybrid-tunnur við víngerð sína (þó ekki í þetta tiltekna vín), þar sem mismunandi eikartegundum er blandað saman við tunnugerðina. Þrúgurnar í víni dagsins eru Tempranillo (90%) og Mazuelo (10%).
Bodegas LAN Gran Reserva Rioja 2010 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður angan af leðri, plómum, kirsuberjum, lakkrís og smá anís. Í munni eru flott tannín, fín sýra og þéttur ávöxtur. Lakkrís, vindlar, leður, þétt berjabragð og smá súkkulaði. Vínið nýtur sín best þegar það hefur hefur fengið að anda aðeins (ég mæli með umhellingu). Endist vel næstu 5-8 árin. Nýtur sín vel með nautakjöt, lambakjöti og villibráð. Mjög góð kaup (2.849 kr). 89 stig.