Flottur Cabernet frá Suður-Afríku

Þegar ég var að byrja að kynnast vínheiminum fyrir margt löndu síðan lærði maður fljótt að það væru ekki mörg vín frá Suður-Afríku sem væri þess virði að prófa og ýmis viðurnefni sem fylgdu sumum þeirra.  Lengi vel snerist víngerðin um magn frekar en gæði og útkoman var eftir því. Í dag eru hins vegar breyttir tímar og yfirleitt hægt að gera nokkuð góð kaup í Suður-Afrískum vínum – bæði hvítum og rauðum.  Þannig hefur Chenin Blanc-þrúgan verið nokkuð tíður gestur hjá okkur á sumrin, einkum þegar við bjuggum í Svíþjóð en jafnvel eftir að við fluttum heim til Íslands.  Reyndar sakna ég þess hve lítið er til af Pinotage-vínum hérlendis en þau vín geta líka verið afbragðsgóð og hægt að gera góð kaup í þeim (á vef vínbúðanna kemur 1 sérpöntunarvín upp þegar leitað er að Pinotage).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Nederburg sem staðsett er í Paarl í Western Cape-héraðinu, þar sem hjarta Suður-Afrískrar víngerðar hefur verið undanfarna öld, eða svo. Vínhús Nederburg mun vera stofnað í kringum aldamótin 1800 af Philippus nokkrum Wolvaart.  Vín dagsins er hreint Cabernet Sauvignon sem hefur fengið að liggja í tæp 2 ár í tunnum úr franskri og amerískri eik, þar sem blandað er saman nýjum og notuðum tunnum.

Nederburg The Manor House Cabernet Sauvignon 2014 er dökkrúbinrautt og aðeins farið að bera á þroska í röndinni.  Í nefinu finnur maður sólber, krækiber, kryddaða eikartóna, tóbak og smá vanillu.  Í munni er góð tannín, fín sýra og góður ávöxtur.  Sólberin og tóbakið nokkuð áberandi í eftirbragðinu ásamt amerískum eikartónum.  Gott matarvín (steikur, pylsur og harðir ostar).  Mjög góð kaup (2.599 kr). 89 stig.

 

Vinir á Facebook