Á seinni hluta síðustu aldar var Beaujolais Neuveau mikið í tísku og mikið kapphlaup þriðja fimmtudag í nóvember ár hvert þegar þessi vín komu í sölu. Það hefur heldur dregið úr þessu húllumhæi, að minnsta kosti á Íslandi, enda eru þetta yfirleitt þunn og óspennandi vín þó svo að stemmingin sé skemmtileg. Þessi vín gerðu vínframleiðendum í Beaujolais ekki mikinn greiða því að vínin frá Beaujolais fengu á sig þann stimpil að standa öðrum frönskum vínum að baki. Þegar maður hins vegar kynnist hinum raunverulegu Beaujolais-vínum kemst maður að því að hér er oft um mjög góð vín að ræða og verðið er yfirleitt mjög hagstætt.
Landfræðilega er Beaujolais á mörkum Rhone og Bourgogne. Veðurfarslega líkist það meira norðurhluta Rónarhéraðs en stjórnskipulega tilheyrir það Bourgogne.
Í Beaujolais flokkast vínin sem Beaujolais AOC, sem er lægsta flokkunin og nær yfir rúmlega 60 þorp. Beaujolais-Villages AOC er skörinni ofar og nær yfir 39 þorp og vínekrur þeirra. Efst í virðingarstiganum er svo Cru Beaujolais sem nær yfir 10 þorp. Framleiðendur þeirra vína sleppa því oft að setja Beaujolais á flöskumiðann, líklega til aðgreina sig frá öðrum Beaujolais-vínum (sem þykja ekki jafn fín).
Vín dagsins
Líkt og öll önnur rauðvín frá Beaujolais þá er vínið gert úr þrúgunni Gamay, sem hefur þunnt hýði og lítil tannín. Framleiðandinn Mommessin hefur starfað undir þessu nafni frá árinu 1865 en starfsemin mun þó vera mun eldri og áður verið í höndum Cluny-munka.
Mommessin Beaujolais-Villages 2015 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá. Í nefinu er bláberjasulta, plómur, jarðarber og krydd. Í munni eru mild tannín, hæfileg sýra og góð fylling. Góður berjakeimur (kirsuber og hindber) og smá hratkeimur í góðu eftirbragðinu. Gott matarvín sem fer vel með fjölbreyttum mat. Mjög góð kaup (2799 kr). 88 stig.