Vínáhugamenn kannast líklega flestir við hvernig Rioja-rauðvín eru flokkuð í Crianza, Reserva og Gran Reserva. Gran Reserva eru efst í þessum virðingarstiga og yfirleitt dýrust enda þarf framleiðandinn að geyma þau í minnst 5 ár eftir uppskeru áður en hægt er að selja vínin. Flest Gran Reserva-vín sem eru í hillum vínbúðanna eru á verðinu 2.500-4.000 krónur (það dýrasta er reyndar á rúmar 10.000 krónur).
Valdepeñas
Svipaðar reglur gilda í héraðinu Valdepeñas, en það er staðsett í Castile-La Mancha í hjarta Spánar. Valdepeñas hefur verið sjálfstætt D.O. (Denominación de Origen) frá árinu 1968. Víngerð þar á sér langa sögu og voru vínin að mestu seld til Madrid og Valencia. Phylloxera-rótarlúsin fór illa með víngerð í Valdepeñas líkt og í flestum héruðum Spánar, og það tók héraðið nokkuð langan tíma að rétta úr kútnum. Farin var sú leið að gróðursetja Airen, sem er harðgerður vínviður sem þolir vel þá miklu þurrka sem þarna geta verið. Síðar var farið að gróðursetja Tempranillo og fleiri tegundir með ágræddum rótum sem þoldu rótarlúsina. Rauðvínin eru, líkt og í Rioja, að mestu gerð úr Tempranillo-þrúgunni, sem í Valdepeñas kallast Cencibel. Rúmlega 3 af hverjum 4 vínum frá Valdepeñas eru gerð úr Tempranillo, en afgangurinn eru rauð og hvít vín úr margvíslegum þrúgum.
Valdepeñas-vínin eru yfirleitt mun ódýrari en Rioja-vín og til að mynda kostar ekkert þeirra 9 vína sem koma upp á vef vínbúðanna meira en 1.999 krónur, og það á einnig við um vín dagsins.
Vin dagsins
Vín dagsins kemur úr smiðju Garcia Carrion, sem rekur nokkrar víngerðir í helstu vínhéruðum Spánar. Íslenskir neytendur kannast væntanlega við Pata Negra og Antaño, sem einnig eru í eigu Garicia Carrion. Undir merkinu Senorio de los Llanos eru framleidd 8 vín í Valdepeñas – 5 rauð, 2 hvít og 1 rósavín.
Senorio de los Llanon Valdepeñas Gran Reserva 2009 er kirsuberjarautt á lit, ágætur þroski kominn í vínið. Í nefinu finnur maður eik, pipar, leður, rauð ber og smá kakó. Í munni eru þurr tannín, hæfileg sýra og sæmilegur ávöxtur. Rauð ber, eik og tóbak ráðandi í þægilegu eftirbragðinu. Ekki mjög rismikið vín en stendur fyllilega undir þeim væntingum sem maður gerir til þess. Fer vel með grilluðu kjöti, pasta, spænskri skinku og grænmetisréttum. Góð kaup (1.999 kr). 87 stig.