Fyrst er ég er farinn af stað með umfjöllun um Montepulciano þá er nauðsynlegt að fara aftur til baka til Toscana, til þorpsins Montepulciano. Eins og ég hef áður nefnt þá er hætt við að maður geti ruglast á þrúgunni og þorpinu því þau bera sama heiti, en vínin eru þó ólík. Vínin frá þorpinu Montepulciano eru að mestu gerð úr þrúgunni Sangiovese, sem þarna kallast Prugnolo Gentile.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá þorpinu Montepulciano í Toscana, frá ókrýndum konungi víngerðar í Toscana, Piero Antinori. Vínið er gert úr Sangiovese (90%) og Merlot (10%). Að lokinni gerjun er það látið liggja í 12 mánuði á eikartunnum og svo 12 mánuði í flöskum áður en það fer í sölu.
La Braccesca Vino Nobile di Montepulciano 2013 er rúbínrautt á lit, með örlítinn þroska í röndinni. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, rifsber, jarðarber og ögn af kanil. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og góð fylling. Kirsuber, leður, eik og tóbak ráðandi í góðu eftirbragðinu. Fer vel með kjötréttum, pasta, sveppum, osti og ítölskum pylsum. Mjög góð kaup (2.999 kr). 90 stig.