Eftir því sem maður prófar fleiri vín úr þrúgunni Montepulciano verður manni ljósara hversu góð matarvín koma úr þessari þrúgu. Þrúgan er ræktuð nokkuð víða um mið-Ítalíu, s.s. í héruðunum Marche, Umbria, Apulia, Toscana og auðvitað Abruzzo. Það má þó ekki rugla þrúgunni saman við bæinn Montepulciano í Toscana, en vínin sem koma þaðan eru úr þrúgunni Sangiovese. Þrúgan þroskast frekar seint og þess vegna hefur hún ekki notið sín í norðurhluta Ítalíu (s.s. í Piemonte og Valpolicella) og lítið er um að hún sé ræktuð utan Ítalíu. Þar sem hún nýtur sín vel gefur hún hins vegar ríkulega uppskeru. Þrúgan er ekki mjög sýrurík og tannínin eru oft mýkri en í öðrum ítölskum þrúgum. Þess vegna eru vínin yfirleitt nokkuð þægileg og aðgengileg flestum, og njóta sín vel með mat.
Athugið að ef þið leitið að vínum úr þrúgunni Montepulciano á vef vínbúðanna þá koma því miður ekki fram nema hluti þeirra vína sem gerð eru úr þessar þrúgu og því best að leita að vínum frá Abruzzo.
Vín dagins
Vín dagsins kemur frá Cantine Torri (sjá nánar umfjöllun um vínhúsið hér). Það er hreint Montepulciano og tilheyri vörulínu sem kallast 4 20 (Quattro Venti). Líkt og önnur vín Torri þá eru vínin lífræn og alls eru 4 vín í þessari línu – 1 rautt, 1 rósavín og 2 hvítvín. Rósavínið er einnig gert úr Montepulciano en slík rósavín frá Abruzzo kallast Cerasuolo d’Abruzzo. Hvítvínin eru gerð úr þrúgunum Trebbiano og Pecorino. Rauðvínið er látið gerjast í stáltönkum og fer svo beint á flöskur þegar það hefur náð tilskildum þroska, án þess að koma við í eikartunnum.
Cantine Torri 4 20 Montepulciano d’Abruzzo 2016 er rúbínrautt á lit og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður rauð ber og kryddaðan blómailm. Í munni eru fín tannín, frískleg sýra og sæmileg fylling. Kirsuber, brómber og grös í þægilegu eftirbragðinu. Þetta er ekki burðarmikið vín en stendur alveg undir þeim væntingum sem maður gerir til vínsins og það fer vel með margvíslegum mat, s.s. kjötréttum, ostum, pylsum, skinku og grænmetisréttum. Góð kaup (1.990 kr). 87 stig.