Við Íslendingar erum farin að þekkja vínin frá Gerard Bertrand nokkuð vel, enda hafa vín hans notið nokkurra vinsælda hérlendis. Vínin koma frá suður-Frakklandi, nánar tiltekið frá Languedoc-Roussilon, þar sem Bertrand hefur sankað að sér vínekrum og sendir frá sér hvert gæðavínið á eftir öðru. Vín dagsins kemur frá víngerð í eigu Bertrand sem nefnist Chateau L’Hospitalet og er staðsett í La Clape utan við bæinn Narbonne. Frá víngerðinni koma 9 mismunandi vín – 4 rauð, 3 hvít og 2 rósavín. Vín dagsins er svokölluð GSM-blanda – gerð úr þrúgunum Grenache, Syrah og Mourvedre, og það fær að liggja í 12 mánuði á 225-lítra eikartunnum áður en það fer á flöskur.
Gerard Bertrand Chateau L’Hospitalet La Clape La Reserve 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt. Í nefið koma kirsuber, plómur, pipar, kakó og svartar ólífur. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og góð fylling. Lárviðarlauf, apótekaralakkrís, smá eik og ólífur í góðu eftirbragðinu sem heldur sér mjög vel. Einstaklega gott matarvín. Frábær kaup (2.999 kr) 90 stig.