Ég hef stundum verið spurður að því hvenær maður eigi að drekka „sparivín“ sem manni hefur áskotnast. Sumir geyma vínin fyrir einhvern tiltekinn viðburð (afmælisdag, útskrift, brúðkaup) á meðan aðrir bíða eftir rétta tilefninu. En hvenær er rétta tilefnið?
Fyrir um það bil áratug, þegar ég var búsettur í Svíþjóð, verðlaunaði ég sjálfan mig eftir langa vinnutörn með því að kaupa flösku af Cos d’Estournel 2005, sem óvænt hafði ratað í hillur vínbúðar hverfisins. Vínbúðin var lítil og maður þurfti yfirleitt að gera sér ferð niður í bæ ef maður vildi nálgast aðeins betri vín. Úrvalsvínin fást hins vegar aðeins í 3 vínbúðum í Svíþjóð og engin þeirra var í Uppsölum. Flaskan kostaði litlar 1900 sænskar krónur og er enn í dag sú dýrasta sem ég hef keypt (það voru reyndar 2 flöskur í hillunni þennan dag og ég sá lengi eftir að hafa ekki keypt þær báðar).
Flaskan var lögð til hliðar í kælinum og svo þegar við fluttum heim til Íslands þá fékk hún áfram að liggja óáreitt. Bæði Wine Spectator og Robert Parker sögðu að þetta vín ætti að fá að liggja óhreyft a.m.k. fram til ársins 2015 og þegar WS prófaði vínið aftur í desember í fyrra sögðu þeir að það mætti vel liggja í 5 ár til viðbótar áður en það færi að sýna sínar bestu hliðar. Báðir voru þó sammála um að það myndi njóta sín vel a.m.k. fram til árins 2040. Vínið fékk á sínum tíma 98 stig hjá Wine Spectator (fékk reyndar 97 í seinni smökkuninni í desember) og Robert Parker gaf því 97 stig. Ég hefði því kannski átt að láta vínið bíða fram að sjötugsafmælinu en hver nennir að geyma vínin sín í 30 ár?
Í gær má hins vegar segja að rétta tilefnið hafi verið til staðar. Yngri dóttir mín átti afmæli og við „sigruðum“ Argentínu 1-1 í fyrsta leik okkar á heimsmeistaramóti í knattspyrnu. Dóttirin bað að vanda um grillaða nautalund í afmælismatinn (hún vill hafa lundina sína frekar rauða) og mér fannst tilvalið að sækja dýrgripinn í vínkælinn. Óhætt er að segja að vínið hafi staðið undir öllum væntingum sem til þess voru gerðar og fer í hóp bestu vína sem ég hef smakkað.
Chateau Cos d’Estournel St.-Estephe 2005 er dökkrúbínrautt á lit með mikla dýpt og farið að sýna smá þroska. Í nefið kemur kröftug lyktarsprengja – lakkrís, plómur, sólber, krydd, fíkjur, leður og frönsk eik, svo nokkur atriði séu nefnd. Í munninn koma tannín sem eru í senn bæði stinn og silkimjúk, góð sýra, mikill ávöxtur og frábært jafnvægi. Lakkrísinn, plómurnar, fíkjurnar og eikin njóta sín vel í löngu eftirbragðinu sem entist nánast allt kvöldið. Vín sem setur nýjan standard í viðmiðum hjá mér þegar frönsk vín eru annars vegar. 98 stig.