Við sem stundum það að skrifa um vín á Íslandi vorum öll sammála um ágæti hins frábært Reserva 2011 frá Luis Canas, og bæði Þorri í Víngarðinum og Steingrímur í Vínoteki völdu það á meðal bestu vína síðasta árs. Vissulega vorum við allir að gefa þessu víni hærri einkunn en erlenda pressan en þetta vín hentar íslenskum bragðlaukum greinilega mjög vel (2012 árgangurinn var svo önnur saga…). Um daginn rakst ég svo á Gran Reserva úr þessum sama árgangi og það olli svo sannarlega ekki vonbrigðum.
Luis Canas Gran Reserva Rioja 2011 er kirsuberjarautt á lit með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður leður, plómur, lakkrís, pipar og vanillu. Í munni eru flott tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Eik, leður, súkkulaði og tóbak í góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. Þetta vín fer vel með hvaða steik sem er! Frábær kaup (3.999 kr). 92 stig.