Þegar ég prófa ný vín reyni ég yfirleitt að afla mér upplýsinga um framleiðandann og láta þær fylgja umsögninni um vínið. Um vín dagsins fann ég hins vegar ákaflega litlar upplýsingar, sem líklega skýrist af því að víngerðin Bontadini finnst hvergi á Ítalíu, heldur er um að ræða vín sem framleitt er fyrir danska fyrirtækið Taster Wine A/S, þ.e. eftir því sem ég kemst næst. Ég sá stundum svona vín í Svíþjóð, þar sem þau voru stundum merkt þekktum svíum, yfirleitt stjörnukokkunum þeirra (m.a. Tina Nordström og Per Morberg). Það eru nefnilega fyrirtæki sem bjóða upp á þessa þjónustu – þú velur vín sem þér líkar við og lætur tappa á flöskur undir þínu merki. Það gæti allt eins verið að þetta vín sé líka fáanlegt undir öðru merki, en það er aukaatriði – hér eru á ferðinni vín sem viðkomandi fyrirtæki eða einstaklingur hefur valið og þetta geta oft verið hin ágætustu vín.
Bontadini Toscana Rosso IGT 2014 er múrsteinsrautt á lit og unglegt að sjá. Lyktin er aðeins lokuð, en þó læðast fram jarðarber, krydd, lakkris og smá vanilla. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Mynta, rauð ber og krydd í ágætu eftirbragðinu. Hentar vel með grillkjötinu og jafnvel ostum. Góð kaup (2.199 kr). 87 punktar.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]