Það eru fá vín jafn sumarleg og Chenin Blanc, að mínu mati. Þegar við bjuggum í Svíþjóð (þar sem sumrin eru nokkuð heitari en á Íslandi) var yfirleitt til Chenin Blanc í kælinum, jafnvel bara kassavín, enda gott að fá sér glas af köldu hvítvíni á heitum sumardegi á meðan grillið er að hitna og þegar steikin er komin á grillið. Þó það verði ekki alveg jafn heitt á Íslandi þá finnst mér það enn fara vel að fá mér glas af köldu hvítvíni á meðan ég grilla (og ég grilla mikið á sumrin). Í fyrra kynntist ég vínunum frá Solms Delta og hvítvínið þeirra féll vel í kramið hjá mér. Vín dagsins er einmitt Chenin Blanc frá Solms Delta. Vínið er látið liggja í stáltönkum í 6 mánuði en lítill hluti þess er settur í franskar eikartunnur til að gefa því meiri fyllingu. Vínið tilheyrir s.k. Lifestyle-línu frá fyrirtækinu, en í þeirri línu eru frískleg vín sem eru frískleg og tilbúin til neyslu.
Solms Delta Chenin Blanc 2016 er gullið og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður angan af sítrus, ferskjum og hunangsmelónum. Í munni er frískleg sýra og góður ávöxtur. Gul epli, sítrónubörkur og hunangsmelónur í góðu eftirbragðinu. Frábær kaup (2.099 kr). Drekkist ungt (á næstu 2-3 árum). 89 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]