Misleitur Syrah

Víngerðarmenn í Chile hafa náð góðum tökum á „frönskum“ þrúgum – Carmenere, Cabernet Sauvignon, Merlot og Pinot Noir, svo nokkrar séu nefndar – en mér finnst þeir ekki hafa náð almennilegum tökum á Syrah/Shiraz.  Ég man varla eftir góðu Syrah frá Chile að undanskildu hinu stórkostlega Folly frá Montes (mér líkaði reyndar ágætlega við Leyda Syrah þó svo að þar sé ekki stórt vín á ferðinni).  Vín dagsins kemur frá vínhúsi Cono Sur, sem framleiða fjölda gæðavína á góðu verði.  Þeir fáu dómar sem ég hef fundið um þetta vín eru flestir jákvæðir, en það er samt eitthvað við það sem fellur ekki að mínum bragðlaukum (eða réttara sagt þefskyni) þó svo að það sé ágætlega gert.
Cono Sur Single Vineyard Block 25 La Palma Syrah 2015 er dökkkirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu eru bláber, fersk krydd og blek(!).  Í munni eru mjúk tannin, góð sýra og fínn ávöxtur. Bláber, brómber, kakó og eik í ágætu eftirbragðinu.  Þetta er ágætt matarvín (rauðar steikur) á fínu verði (2.690) og ágætlega gert.  Það er samt eitthvað við lyktina sem mér fellur ekki og þannig er þetta víst stundum. 87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook