Þrúgan Barbera er þriðja mest ræktaða þrúgan á Ítalíu (á eftir Sangiovese og Montepulciano) en hún þykir auðveld í ræktun og gefur vel af sér. Vínin eru yfirleitt dökk, með góða sýru en það fer ekki jafn mikið fyrir tannínunum. Tannínin eykst þó yfirleitt eftir því sem vínviðurinn verður eldri og á sumum vínekrum í Piemonte, þar sem þrúgan er algengust, eru vínviðir sem eru meira en 100 ára gamlir og gefa af sér vín sem geta geymst mjög vel. Saga Barbera er löng og merk – elstu heimildir um hana eru frá 13. öld – en árið 1985 var mikið hneyksli í ítalskri víngerð þegar nokkrir Barbera-ræktendur settu metanól út í vínin sín, sem ollu dauða 30 manns og fjölmargir urðu blindir. Þetta leiddi til þess að vinsældir Barbera hríðféllu og framleiðslan minnkaði verulega. Hægt og rólega er orðspor Barbera þó aftur á uppleið með réttu, enda yfirleitt afbragðsgóð vín þar á ferð.
Vín dagsins
Vín dagsins er frá vínhúsi G.D. Vajra í Piemonte. Í vínbúðunum er einnig hægt að nálgast afbragðsgóðan Nebbiolo frá sama framleiðanda en því miður eru hinir stórgóðu Barolo (Albe og Bricco delle Viole) ekki í hillunum.
G.D. Vajra Barbera d’Alba 2015 er djúprauðtt á lit, unglegt með fallega tauma. Í nefinu finnur maður kirsuber, jarðarber, pipar og krydd. Í munni eru mjúk tannín, rífleg sýra, fínn ávöxtur með berja- og súkkulaðikeim í þægilegu eftirbragði. Frábært matarvín (kjöt, sveppir, ostar). Góð kaup (3.320 kr). 90 stig.