Vín dagsins er hvítvín frá Spáni, frá vínhúsi Marques de Riscal, en það á sér nokkuð langa og merka sögu sem nær aftur til árins 1858 þegar víngerð Marques de Riscal hófst í Rioja. Það var þó ekki fyrr en árið 1972 sem fyrsta hvítvínið kom frá Marques de Riscal, en það kom reyndar frá héraðinu Rueda. Þrúgan Verdejo hafði fallið mjög úr tísku á þessum tíma en vinsælustu hvítvín Spánar voru þá í Sherrý-stíl. Marques de Riscal hófu þrúguna hins vegar aftur til vegs og virðingar og í dag eru gerð mjög frambærileg hvítvín úr þessari þrúgu og í þeim gerir maður yfirleitt mjög góð kaup.
Annars má benda á að þeir sem ferðast til Rioja verða að koma við hjá Marques de Riscal til að skoða stórglæsilega víngerðina, en húsið er hannað af hinum heimsfræga arkitekt Frank Gehry.
Marques de Riscal Rueda Organic 2016 er fölgult á lit, með tónum af sítrus, perum, melónum og myntu í nefinu. Í munni er vínið þurrt og frísklegt, með þægilegum keim af sítrus, hunangsmelónum og steinefnum í eftirbragðinu. Mjög matarvænt vín. Góð kaup (1.999 kr). 87 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]