Fyrr í vetur fengum við að kynnast hinu frábæra Reserva 2011 frá Luis Canas, sem sló rækilega í gegn, a.m.k. hjá okkur víngagnrýnendum hér á Íslandi. Ég held svei mér að við höfum allir gefið því 5 stjörnur! Nýlega sá ég að 2012-árgangurinn var kominn í hillurnar og var því spenntur að sjá hvort hann stæði 2011-árganginum jafnfætis. Því miður urðu vonbrigðin töluverð – ekki af því að vínið væri slæmt, heldur af því að það á langt í land með að jafnast á við 2011. Ef þið sjáið 2011-flöskur í vínbúðinni skuluð þið endilega stökkva á þær, en annars gæti verið betra að bíða eftir næsta árgangi.
Luis Canas Rioja Reserva 2012 er kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá og með sæmilega dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, eik, smá leður, vanillu og krydd. Í munni eru sæmileg tannín, hófleg sýra og ágætur ávöxtur. Leður, vanilla og rauð ber í ágætu eftirbragðinu, en vínið er þó í það heila frekar rislítið. Ágætis matarvín (2.799 kr). 86 stig.