Meira Chablis!

Hvítvínin frá Chablis hafa löngum verið talin með bestu hvítvínum, einkum grand cru-hvítvínin.  Premier cru-vínekrurnar eru 89 talsins (í upphafi aldarinnar voru þær 40 en reglunum var breytt árið 2009 og þá fjölgaði vínekrunum sem fá að bera þennan titil), en það eru aðeins sjö vínekrur í Chablis sem flokkast sem grand cru og þessar vínekrur þykja þær bestu í Chablis.  Flestar eiga þær sér langa sögu og sagt er að munkar í klaustrum heilags Marteins hafi verið farnir að fást við víngerð fyrir 1000 árum! Ekki veit ég hve löng saga Domaine Laroche er, en vínhúsið framleiðir vín frá 10 premier cru-ekrum og 3 grand cru-ekrum. Flaggskip Laroche er svo La réserve de l’Obédience.  Premier cru-vín þola yfirleitt nokkurra ára geymslu (5-7 ár) en grand cru geta enst í 10-15 ár, jafnvel lengur.  Premier cru-vín eru um 3% af vínframleiðslu í Chablis.
Vín dagsins er grand cru-vín frá vínekrunni Les Blanchots, sem líkt og hinar grand cru-ekrurnar er á „hægri“ (norðuraustur) bakka árinnar Sereine, sem rennur í gegnum Chablis.  Líkt og öll hvítvín frá Chablis þá er um að ræða hreint Chardonnay, en ekki er leyfilegt að nota aðrar þrúgur í hvítvín sem bera nafn Chablis.  Komi aðrar þrúgur við sögu er aðeins heimilt að kenna vínin við Bourgogne en nafn Chablis má ekki koma fram á flöskumiðanum.
Domaine Laroche Chablis Grand Cru Les Blanchots 2011 er fallega gullið á lit, með angan af greipaldin, ferskjum, melónu, vanillu og eik. Í munni er vínið þurrt og í mjög góðu jafnvægi, með góða sýru og flottan ávöxt. Öflugt en um leið fágað eftirbragð sem heldur sér vel. Frábært matarvín fyrir fisk, skelfisk og ljóst fuglakjöt, jafnvel kálfakjöt. Í dýrari kantinum þegar hvítvín eru annars vegar (6.698 kr) en vel þess virði að prófa. 92 stig.
Athugið að vínið sem nú er komið í hillur vínbúðanna er 2012-árgangurinn, sem ku vera enn betri en 2011…

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook