Alltaf tími fyrir gott Búrgúndí, einkum ef það er lífrænt!

Líklega kannast flestir íslenskir vínáhugamenn við vínhús Joseph Drouhin, en það vita kannski ekki allir að vínræktun og víngerð Drouhin hefur verið lífræn í meira en 20 ár! Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar hafði Robert Drouhin, sem þá var við stjórnvölinn, áttað sig á því að þó svo að vínekrurnar litu vel út þá voru vínin ekki jafn góð og áður.  Smám saman færðist framleiðslan yfir í lífrænar áherslur og hefur verið svo að öllu leyti frá árinu 1997.  Mér er líka enn í fersku minni hið stórkosta Chablis Grand Cru Les-Clos 1997, sem er enn eitt besta hvítvín sem ég hef smakkað, og hef ég þó smakkað þau mörg og jafnvel mun dýrari síðan þá.  Vín dagsins er reyndar ekki frá Chablis heldur frá Saint Veran í Bourgogne.  Það eru auðvitað gert úr hreinu Chardonnay og er látið liggja 6-8 mánuði í stáltönkum áður en það er sett á flöskur.
Joseph Drouhin Saint Veran 2014 er gullið á lit, unglegt og afar fallegt í glasi.  Í nefinu finnur maður sítrusávexti, ananas, melónur og hvítan aspas. Í munni er góð sýra og fínn ávöxtur. Vínið er þurrt en þó smjörkennt, með þægilega greipaldin-, epla og melónutóna í góðu eftirbragðinu. Mjög góð kaup (2.950 kr). Tilvalið með ljósu fuglakjöti, fiski og skelfiski. Athugið að þetta er ekki vín sem er ætlað til langrar geymslu og á sennilega ekki nema 2-3 ár eftir áður en það fer að dala (það er þó frábært núna). Næsti árgangur mun vera að minnsta kosti jafn góður, ef ekki betri er 2014.
90 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook