Ég hef aldrei náð því almennilega að sökkva mér ofan í heim Búrgúndarvína – kannski sem betur fer því mér hefur sýnst að þeir sem það gera eiga varla afturkvæmt þaðan! Búrgúndí hljómar kannski ekki svo flókin með aðeins 6 vínræktarhéruð, en maður þarf samt eiginlega að þekkja til allra vínbændanna í hverju héraði, vita hvar vínekrurnar þeirra eru staðsettar, hvernig veðurfarið hefur verið á hverjum stað og svo framvegis og svo framvegis. Eitt er þó ákaflega einfalt við Búrgúndarvínin – þau eru gerð úr Pinot Noir. Það er kannski það eina sem þau eiga sameiginlegt?
Vín dagsins kemur frá vínekrum sem liggja umhverfis þorpið Mercurey í Cote Chalonnaise, sem er u.þ.b. í miðri Bourgogne. Mercurey er mikilvægasta og stærsta vínræktarsvæðið í Cote Chalonnaise, en þaðan kemur rúmur helmingur allra vína í Cote Chalonnaise. Fimmtungur vínekranna flokkast sem premier cru, og rauðvínin eru yfirleitt dekkri og þéttari/kröftugri en önnur rauðvín frá Cote Chalonnaise. Cote Chalonnaise hefur þó yfirleitt staðið í skugga hinna héraðanna í Bourgogne, og það sést m.a. á því að það eru mér vitanlega aðeins tvö vín frá þessu svæði fáanleg í vínbúðunum.
Joseph Drouhin Mercurey 2013 er ljósrautt á lit, unglegt með ágæt dýpt. Í nefinu finnur maður dæmigerð hindber og jarðarber, einnig krydd og hvítan pipar. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Hindber, jarðarber, brómber, hvítur pipar og smá eik í góðu eftirbragðinu, heldur sér vel, fínt með fuglakjöti, kálfi og lambi. Góð kaup en aðeins í dýrari kantinum (3.965 kr). 90 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]