Engillinn klikkar ekki

Eitt af mínum uppáhaldsvínum er fjólublái engillinn frá Montes í Chile.  Þetta vín er gert úr þrúgunum Carmenere (92%) og Petit Verdo og er eitt af flaggskipum Montes-víngerðarinnar.  Á föstudaginn ákváðum við að gera vel við okkur og fengum okkur hreindýrasteik sem við áttum í frystinum (hún var reyndar búin að vera í ísskápnum frá því um síðustu helgi) og þegar ég sá engilinn í vínbúðinni stóðst ég ekki freistinguna.
Montes Purple Angel 2013 er dökkfjólublátt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu eru plómur, brómber, sólber og krydd. Í munni eru stinn tannín, góð sýra, flottur ávöxtur og gott jafnvægi.  Dökkt súkkulaði, kardimommur og ristuð eik í fáguðu eftirbragðinu.  Vandað og flott vín fyrir stórar steikur og villibráð (6.799 kr). 92 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook