Alvöru bolti frá Portúgal

Það eru kannski ekki allir vita það, en í hillum vínbúðanna eru nokkrir virkilega flottir boltar frá Portúgal, og þeim hefur heldur farið fjölgandi upp á síðkastið.  Þegar talað er um gæðavín frá Portúgal þá beinist hugurinn ósjálfrátt að stórfenglegum árgangspúrtvínum frá Douro-dalnum, en árgangspúrtvín eru aðeins gerð í góðu árferði – þyki árgangurinn ekki nógu góður kemur ekkert árgangspúrtvín.  Einn af vönduðustu púrtvínsframleiðendunum heitir Quinta do Crasto, en þeir eru líka einn vandaðasti rauðvínsframleiðandinn í Douro-dalnum.  Þegar árgangurinn er góður koma ekki bara árgangspúrtfín frá Quinta do Crasto, heldur kemur líka Tinta Roriz – rauðvín sem aðeins er búið til í góðum árgöngum.  Þannig kom ekkert Tinta Roriz frá Quinta do Crasto á árunum 2004-2008, en það kom svo á hverju ári frá 2009 – 2014 (ég veit ekki enn hvernig verður um 2015-2016, en margir framleiðendur gerðu árgangspúrtvín fyrir þessi ár).  Við þekkjum líklega Tinta Roriz betur sem Tempranillo, og lengi vel var álitið að það væri eina þrúgan sem gæfi af sér góð rauðvín í Portúgal, en nú vita menn betur og hafa lært að gera gæðavín úr öðrum þrúgum.
Quinta do Crasto Tinta Roriz 2014 er gert úr sérvöldum þrúgum og fær að lokinni gerjun að þroskar í 18 mánuði á tunnum úr franskri eik.  Vínið er dökkkirsuberjarautt á lit, fallegt í glasi með góða dýpt, unglegt að sjá, flottir taumar.  Í nefinu finnur maður plómur, brómber, kirsuber og krydd, jafnvel smá mentól.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra, þétt og kröftugt vín í fínu jafnvægi. Kirsuber, lakkrís og pipar í eftirbragðinu.  Fyrir þá sem ætla að borða villibráð um jól eða áramót. Aðeins í dýrari kantinum (5.999 kr) en mjög góð kaup engu að síður. 92 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook