Flestir viðskiptavinir vínbúðanna kannast sjálfsagt við nafn Gerard Bertrand. Það eru allmörg vín frá þessum ágæta frakka fáanleg í vínbúðunum og yfirleitt nokkuð góð kaup í þeim. Vín dagsins er nýtt í búðunum, en ólíkt flestum öðrum vínum Gerards þá flokkast það sem Vin de France, sem er lægst í virðingarstiganum. Það þýðir þó ekki að hér sé eitthvað ómerkilegt vín á ferðinni – síður en svo – en samkvæmt þeim reglum sem gilda um franska víngerð þá er ekki annað hægt en að flokka vínið svona. Hér er um að ræða lífrænt vín gert úr allmörgum þrúgum – Syrah, Grenache, Mourvedre, Cabernet Sauvignon, Merlot, Malbec og Marselan! Vínið er látið þroskast í 15 mánuði í tunnum úr franskri eik áður en það er svo sett á flöskur.
Gerard Bertrand Kosmos Red Blend 2014 er rúbínrautt á lit, unglegt, ekki mikil dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, tóbak og krydd. Í munni eru ágæt tannín, fín sýra og sæmileg fylling, kirsuber og tóbak í ágætu eftirbragðinu. Einfalt og gott vín. 87 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]