Á vef vínbúðanna er hægt að fylgjast með nýjungum í vöruúrvali, en um hver mánaðamót eru breytingar gerðar – sum vín detta út og önnur koma inn í staðinn. Um síðustu mánaðamót urðu nokkrar áhugaverðar breytingar, m.a. komu inn vín frá Tussock Jumper (bendi þar sérstaklega á hvítvínin) og einnig hin portúgölsku Andreza, en ég fjallaði um þessi vín fyrir nokkru og það er ánægjulegt að sjá að þau séu komin inn. Af öðrum áhugaverðum nýjungum má nefna hvitvín frá hinum austurríska Eichinger og svo er líka ástæða til að benda á vínin frá Pfaffl, þar á meðal rauðvín úr þrúgunni Zweigelt, sem er ein aðalþrúgan í Austurríki. Þá er kominn 2014-árgangurinn af Columbia Crest Cabernet Sauvignon sem hefur hlotið mjög góða dóma (91 stig hjá Wine Spectator) og svo bendi ég sérstaklega á Felsina Chianti Classico Berdarenga sem hefur sömuleiðis hlotið mjög fína dóma (92 stig í WS). Það er því full ástæða til að prófa eitthvað nýtt í næstu ferð!