Spennandi Malbec

Vínhús Boutinot rekur uppruna sinn til Frakklands, þar sem það var stofnað árið 1980.  Þetta vínhús er þó öðruvísi en flest önnur, því það var upphaflega stofnað til að flytja inn vín fyrir veitingahús í eigu foreldra annars stofnandans, sem var lítt hrifinn af því sem dreifingaraðilar í Bretlandi voru að bjóða þeim.  Fljótlega var farið af stað með eigin framleiðslu og með tímanum bættust fleiri víngerðarmenn og vínbændur víða um heim í hópinn.  Undir merkjum Boutinot eru nú framleidd vín í Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Nýja-Sjálandi, Chile, Ástralíu og víðar.  Sumir framleiðendurnir kaupa þrúgur af vínbændum og gera úr þeim vín, aðrir rækta sínar eigin þrúgur og sumir kaupa „tilbúin“ vín til að selja í eigin nafni en nýta dreifingarnet Boutinot.
Vín dagsins er nefnt eftir vinunum Walter Bressia og Paul (Pablo) Boutinot, og kemur frá Mendoza í Argentínu.  Þetta er hreint Malbec vín sem kemur skemmtilega á óvart.
Pablo y Walter Malbec Mendoza 2016 er djúprautt á lit, unglegt, með angan af kirsuberjum, sólberjum, lakkrís og berjalyngi.  Í munni eru góð tannín og hæfileg sýra, góður ávöxtur með kirsuberjum, lakkrís og smá pipar.  Með aðeins meiri fyllingu hefði vínið hækkað sig um 2-3 stig – engu að síðu mjög góð kaup (2.150 kr).  Hentar vel með villibráð, nauti og grillmat. 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook