Firnagott Sancerre

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá lesendum Vínsíðunnar að þrúgan Sauvignon Blanc hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds þrúgum.  Þrúgan nýtur sín ákaflega vel á vínekrunum kringum þorpið Sancerre í Loire-héraði í Frakklandi, og vín dagsins er einmitt þaðan.  Sumarið 2015 var einstaklega gott í öllu Frakklandi og þessi árgangur fer í sögubækurnar fyrir gæði í nánast öllum vínhéruðum Frakklands.  Pascal Jolivet er á meðal bestu víngerðarmanna í Sancerre og vín dagsins telst vera einfalt Sancerre frá honum, en látið það ekki blekkja ykkur, því þetta er firnagott vín sem fær 91 stig hjá Wine Spectator. Á vef vínbúðanna er sagt að árgangurinn sem nú er í hillunum sé 2014 en hann er ekki mikið síðri en 2015-árgangurinn og alveg óhætt að skella sér á hann.
Pascal Jolivet Sancerre 2015 er ljósgullið á lit, með angan af sólberjalaufum (nema hvað – þetta er jú gert úr Sauvignon Blanc), perum, melónum og greipaldin.  Í munni er góð sýra og flottur ávöxtur, með keim af greipaldin (smá beiskja, sem kemur vel út), þroskuðum perum og suðrænum ávöxtum.  Góð kaup (3.498 kr).  Fínt með humri, skelfiski og grilluðum fiski.  Ræður líka vel við ljóst fuglakjöt og salöt, og svo er alveg óhætt að njóta þess án matar.  92 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook