Vínin frá vínhúsi Willm í Alsace-héraði í Frakklandi hafa verið í nokkru uppáhaldi hjá mér í seinni tíð og ekki að ástæðulausu – hvítvínin þeirra hafa m.a. fengið Gyllta glasið undanfarin 3 ár (ýmist Riesling, Pinot Gris eða Gewurztraminer) og virðast nánast vera orðnir áskrifendur að þessari viðurkenningu, enda vel að henni komin. Einhverra hluta vegna virðast þau ekki falla jafn vel í kramið hjá Allison Napjus sem er aðalsérfræðingur Wine Spectator í vínunum frá Alsace. Það gerir svo sem ekki mikið til á meðan okkur hinum líkar þessi vín…
Vín dagsins er hvítvín eins og nær öll vínin frá Willm (þeir framleiða líka rósavín og Cremant-freyðivín) og öðrum framleiðendum í Alsace-héraði, og þetta vín er gert úr þrúgunni Pinot Gris (sem heitir líka Pinot Grigio á Ítalíu). Kollegi minn Steingrímur Sigurgeirsson á vinotek.is er sammála mér um ágæti þessara vína og gefur þessu tiltekna víni fjóra og hálfa stjörnu.
Willm Pinot Gris Alsace Reserve 2015 er fölgult á lit og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður sætar perur, hunang, timjan og mikinn sítrusávöxt, sem er svo meira áberandi í munni, þar sem maður finnur einnig hunangið og smávegis af franskri eik, meira að segja smá anís. Góð fylling og flott jafnvægi. Mjög góð kaup (2.499 kr). 89 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]