Um daginn fjallaði ég um Vaqueyras frá Olivier Ravoire, en Vaqueyras er gjarnan kallað litli bróðir héraðanna Gigondas og Chateauneuf-du-Pape. Hér er kominn annar stóri bróðirinn – Gigondas, sem líkt og litli bróðir er aðeins fáanlegur í Fríhöfninni en ekki í vínbúðum ÁTVR. Í Fríhöfninni er nú 2011-árgangurinn í hillunum (skv. vef Fríhafnarinnar) en sá árgangur fékk 94 stig hjá Wine Spectator og lenti í 15. sæti á topp 100-lista ársins 2013. Hér er það hins vegar 2012-árgangurinn sem er til umfjöllunar, en að mati þessara sömu sérfræðinga þótti 2012-árgangurinn mun betri í Suður-Rónarhéraði.
Olivier Ravoire Gigondas 2012 er dökk-kirsuberjarautt á lit, ungt en þó má greina örlítinn þroska í kantinum. Í nefinu má greina plómur, kirsuber og hindber og smá málm sem aftur kemur betur fram í munni, þar sem blóðappelsínur, krydd og dökkt súkkulaði læðast fram í eftirbragðinu. Tannínin eru enn nokkuð hrjúf, sýran góð og það er nægur ávöxtur til staðar. Þetta vín hefur gott af að fá að anda smá stund áður en þess er neytt. Hentar vel með kjöti og ostum. Frábær kaup (3.799 kr). 93 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]