Pottþétt með lambinu

Það er ekki alltaf sem Pinot Noir vekur lukku á mínu heimili, en þessi þrúga hefur yfirleitt ekki átt mjög upp á pallborðið hjá mínum betri helmingi.  Þegar við fórum á Food’n’Fun í vor fengum við þó Pinot Noir sem henni líkaði við og það varð aftur staðfest nýlega þegar þetta sama vín var prófað á ný.  Það er nefnilega svo að það eru fá vín sem fara betur með íslenska lambinu en Pinot Noir, og kannski engin tilviljun að umrætt Pinot Noir kemur frá Nýja-Sjálandi, en þar í landi er einmitt mikil sauðfjárrækt og fínasta lambakjöt sem þaðan kemur.  Vínið kemur að sjálfsögðu frá Marlborough-héraðinu, sem er aðalvínhérað Nýja-Sjálands.  Víngerðin nefnist Spy Valley og þetta vín hefur verið að fá 88-92 stig hjá Wine Spectator undanfarinn áratug.
Spy Valley Marlborough Pinot Noir 2013 er ljós-kirsuberjarautt á lit, með angan af jarðarberjum, hindberjum, kryddjurtum og smá súkkulaði.  Í munni eru mjúk tannín, ágæt sýra, góður keimur af hindberjum og jarðarberjum, ögn af myntu og hvítum pipar.  Mjög gott matarvín sem verður eflaust enn betra á næstu árum. Mjög góð kaup (3.399 kr). 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook