Þrusugóður Chianti Classico

Rauðvínin frá Toscana-héraði á Ítalíu eru að stofni til gerð úr Sangiovese-þrúgunni og það á auðvitað við um vín dagsins, sem kemur frá Chianti Classico.  Það er þó heimilt að bæta litlu magni af öðrum þrúgum í þessi vín og í vín dagsins mun um 10% vera komið úr öðrum þrúgum.  Vínið er gerjað á hefðbundinn hátt og liggur að gerjun lokinni í minst 2 mánuði í eikartunnum.  Aðstæður í Toscana hafa verið vínbændum hagstæðar undanfarin 15 ár (2002 var skelfilegt ár fyrir vínbændur í Evrópu) og þó að 2014 hafi verið prýðilegt ár þá er árgangurinn til þess að gera slakur í samanburði við árin á undan.  Það er þó engin ástæða til forðast þann árgang – þvert á móti getur maður gengið að þessum vínum vísum og reiknað með að þau standi fyrri árgöngum ekki langt að baki.
Líkt og önnur góð vínhús þá eru nokkrar vörulínur sem koma frá Cecchi – allt frá einföldu Sangiovese Toscana yfir í ofur-Toskanavínið Coevo.  Línan Storia di Famiglia er til þess að gera nýleg en hérlendis er einnig hægt að fá 3 önnur vín frá Cecchi (meira um þau síðar).
Cecchi Chianti Classico  Storia di Famiglia 2014 er kirsuberjarautt á lit, ungt.  Í nefinu finnur maður kirsuber, jarðarber, lakkrís, pipar og smá anís.  Í nefinu fín tannín, góð sýra og prýðilegt jafnvægi, góð fylling.  Kirsuber, lakkrís og krydd ráða ferðinni. Ætti að njóta sín best á næstu 2-4 árum.  Frábær kaup (2.495 kr) og líklega leitun að jafn góðu Chianti Classico í þessum verðflokki – 90 stig. Hentar vel með rauðu kjöti og bragðmiklu fuglakjöti.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook