Víngerð Paul Mas í Languedoc í Frakklandi á sér rúmlega 120 ára sögu, sem er kannski ekki mikið þegar frönsk víngerð er annars vegar, en fyrirtækið hefur dafnað vel og vaxið hratt á þessum 100 árum, og vínekrurar ná nú yfir 600 hektara lands, en hefur auk þess umsjón með yfir 1300 hektörum í eigu vínbænda sem selja þrúgur sínar til Paul Mas samsteypunnar. Vínin eru gerð undir mörgum nöfnum, og þar á meðal er Hrokafulli froskurinn – Arrogant Frog.
Alls eru 13 vín framleidd undir merkjum hrokafulla frosksins – 6 rauðvín, 5 hvítvín og 2 rósavín. Vín dagsins er hvítvín og er skilgreint sem vin de Pays d’Oc, þ.e.a.s. sveitavín sem gefur víngerðinni nokkuð frjálsar hendur í vali á þrúgum og sjálfa framleiðsluna. Útkoman getur verið ansi misjöfn, en vín í þessum gæðaflokki eru alla jafnan öruggari kaup en vín sem flokkuð eru sem vin de France, og inn á milli leynast gullmolar.
Arrogant Frog Chardonnay-Viognier 2013 er að mestu gerjað á stáltönkum, en þriðjungur Chardonnay-þrúganna er látinn gerjast í eikartunnum og liggur þar í 3 mánuði áður en vínið er blandað. Vínið er gullið á lit og fallegt í glasi. Í nefinu er smjörkennd eik, sítrus, perur, aspas og suðrænir ávextir. Í munni er frískleg sýra, vínið er bragðmikið en skortir aðeins fyllingu. Steinefni, hvítur pipar, ananas og sítrónubörkur. Ágæt kaup (2.290 kr). Gott matarvín sem gengur vel með sushi, fiskréttum, fuglakjöti og suðrænum ávöxtum. 86 stig
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]