Ef þú átt leið um Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli á næstunni myndi ég skoða það vel að kippa með einni flösku af víni dagsins. Vínið kemur frá héraðinu Pessac-Leognan í Bordeaux í Frakklandi. Þetta er kannski ekki þekktasta hérað Bordeaux í dag, en hið upprunalega Claret, eins og Englendingar kölluðu rauðvín á sínum tíma og fluttu inn í stórum stíl, kemur frá Pessac-Leognan. Þar er líka elsta vínhúsið í Bordeaux sem enn starfar undir sama nafni – Chateau Pape Clement – og þar er líka það vínhús sem fyrst fékk alþjóðlega frægð – Chateau Haut-Brion, sem er líka eina vínhúsið sem var á flokkuninni frá 1855, sem ekki er í Haut-Medoc.
Héraðið er jafn þekkt fyrir hvítvín sín og rauðvín. Rauðvínin frá Pessac-Leognan eru að mestu leyti gerð úr Cabernet Sauvignon en yfirleitt er eitthvað af Merlot blandað saman við. Þá er einnig heimilt að nota Cabernet Franc, Petit Verdot og Malbec í rauðvínin.
Chateau Haut-Vigneau Pessac-Leognan 2014 er kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður kirsuber, jarðarber, krydd og franska eik. Í munni eru sæmileg tannín og ágæt fylling. Sólber, plómur, eik og hvítur pipar. Þokkalegt eftirbragð. MJög góð kaup (2.799 kr í Fríhöfninni). Hentar vel með nauti, lambi og ostum. 88 stig
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]