Tussock Jumper nefnist vínframleiðandi sem framleiðir vín frá öllum heimshornum. Á flöskumiðanum er mynd af dýri í rauðri peysu, en dýrið á miðanum er einkennandi fyrir uppruna vínsins. Einkennisdýr vínanna frá Suður-Afríku er nashyrningurinn, og hann hefur auðvitað verið færður í rauða peysu á flöskumiðanum. Rauðvínið er blanda Grenache, Shiraz og Viognier, og þrúgurnar koma frá Western Cape-héraðinu. Hver tegund fyrir sig er gerjuð í stáltönkum og þær eru svo blandaðar saman áður en vínið er sett á notaðar, franskar eikartunnur þar sem það fær að hvíla í 14 mánuði áður en það er sett á flöskur. Í 2015-árgangnum er vínið að mestu gert úr Shiraz (95%), en hinar þrúgurnar gera hin 5 prósentin.
Tussock Jumper Grenache-Shiraz-Viognier 2015 er kirsuberjarautt á lit, með angan af leðri, rauðum berjum og svörtum ólífum. Í munni er það kryddað, ekki mjög tannískt, ágæt sýra og fylling, með berja- og lakkrístónum. Hentar ágætlega með grillmat, ostum og pizzum. 86 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]