Þrúgan Pinot Gris er sögð mun auðveldari í ræktun en frændi hennar Pinot Noir, og er ræktuð víða um heim. Hún gengur líka undi fleiri nöfnum – í Þýskalandi kallast hún ýmist Grauburgunder eða Ruländer, og á Ítalíu heitir hún Pinot Grigio. Pinot Gris mætti þýða sem gráa köngulinn, en þrúgan er oft gráleit þó hún geti stundum verið koparlituð eða jafnvel ljósbleik á lit. Þrúgan náði miklum vinsældum á miðöldum og var þá flutt út um alla Evrópu, og var m.a. aðalþrúgan í Bourgogne og Champagne. Hún þótti samt ekki gefa nógu vel af sér og vék víða fyrir Chardonnay, en þegar tókst að rækta fram afbrigði sem gaf betur af sér náði hún fótfestu á ný og vinsældir þessarar þrúgu hafa heldur aukist á síðustu árum, enda gefur hún af sér aðgengileg og ljúffeng vín nánast hvar sem hún er ræktuð. Vínin hafa oft angan af ferskjum og greipaldin, með suðrænum tónum í bragðinu – melónur og mangó. Vínið sem hér er fjallað um kemur af vínekrum sem liggja í hlíðum Montalcino í Toscana á Ítalíu. Montalcino liggur í hjarta Toscana og þaðan koma sum af bestu vínum Ítalíu, hin stórkostlegu Brunello, sem áður hefur verið fjallað um hér á síðunni og munu eflaust koma oft fyrir síðar.
Castello Banfi San Angelo Pinot Grigio 2013 er strágullið á lit og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður perur, banana, hunang, ferskjur og greipaldin. Í munni er vínið frísklegt með góða fyllingu og tóna af appelsínuberki og hunangsmelónu. Hentar mjög vel með fiskréttum, salatréttum eða bara sem fordrykkur á fallegum sumardegi. Mjög góð kaup (2.798 kr). 89 stig. Athugið að vínið sem nú er í hillum vínbúðanna er 2015 árgangurinn, en hann mun ekki gefa 2013 neitt eftir og óhætt að prófa hann.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]