Gamall kunningi sem stendur enn fyrir sínu

Þið kannist væntanlega flest við spænsku rauðvínin með gyllta netinu utan um flöskuna – Faustino og Marques de Riscal. Þau hafa verið fáanleg í hillum vínbúðanna lengur en elstu menn muna eins og sjá má af vörunúmerum þessara vína (nr 118 og 122).  Sú staðreynd að þessi vín séu enn fáanleg í vínbúðunum segir auðvitað að þessi vín hafa haldið gæðum í gegnum árin og þau virðast ávallt falla íslenskum neytendum vel í geð.  Það er ekki svo langt síðan ég smakkaði Faustino en það var hins vegar orðið nokkuð langt síðan ég prófaði Markgreifann af Riscal, og ég kippti því einni með þegar ég fór i vínbúðina um daginn. Nýjasti árgangurinn, 2013, er greinilega nýkominn í hús og þrátt fyrir að þessi árgangur sé ekki jafnsterkur í Rioja eins og undanfarinn áratugur hefur verið, þá olli þetta vín ekki vonbrigðum með grilluðu nautakjötinu.
Marques de Riscal Rioja Reserva 2013 er blanda af tempranillo (90%), Graciano (7%) og Mazuelo (3%). Það er kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá.  Í nefinu er angan af rauðum berjum, anís, vanillu, tóbaki og ferskum kryddjurtum.  Í munni er þægilegur eikarkeimur, fín tannín og gott jafnvægi, með kaffi, plómum og kryddi í ágætu eftirbragðinu.  Góð kaup (2.998 kr) og fer vel með grilluðu nautakjöti. 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook