Víngerð Trivento er staðsett í Mendoza-héraði í Argentínu. Nafnið Trivento þýðir þrír vindar og vísar til vindanna sem blása um sléttur Mendoza – Polar, Zonda og Sudestada nefnast vindarnir þrír. Vín fyrirtækisins skiptast niður á nokkrar línur – Eolo nefnist flaggskipið og er gert úr Malbec. Því miður er það vín ekki í boði hér á landi, en ekki langt á eftir flaggskipinu er Golden Reserve-línan, sem telur 6 mismunandi vín: 5 rauðvín (Malbec, Syrah, Cabernet Sauvignon, Pinot Noir og Cabernet Franc) og 1 hvítvín (Chardonnay). Hér á landi fást Malbec, Cabernet Sauvignon, Chardonnay og svo Syrah sem hér er fjalllað um.
Trivento Golden Reserve Syrah 2012 er gert úr hreinu Syrah. Það hefur fengið að liggja í 12 mánuði í tunnum úr nýrri, franskri eik og svo 12 mánuði á flösku áður en það kemur á markað. Vínið er dökkrautt á lit, unglegt og með fallega tauma. Í nefinu eru rauð ber, brúnar töggur-karamellur, súkkulaði og sólberjasulta. Í munni eru góð tannín, ágæt sýra og gott jafnvægi. Karamellan, kakó, sólberjasulta, niðursoðin Jarðarber og apótekaralakkrís sem kemur betur fram í eftirbragðinu, sem heldur sér nokkuð vel. Mjög góð kaup (2.999 kr), 89 stig.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]