Fimm stjörnu bolti

Það er ekki á hverjum degi sem maður smakkar vel þroskaða bolta á borð við Cinq Cepages.  Nafnið þýðir fimm þrúgur og vísar til þrúganna sem notaðar eru við gerð vínsins – Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc, Merlot, Malbec og Petit Verdot,  þar sem Cabernet Sauvignon er ráðandi eða um 75%.  Vínið var látið þroskast í 2 ár á litlum tunnum úr franskri og amerískri eik, en frá 1999 hefur víngerðin aðeins notast við franskar eikartunnur við gerð þessa víns.  Fyrsti árgangurinn er frá árinu 1990 en eftir að 1996-árgangurinn var valinn vín ársins 1999 hjá Wine Spectator skaust vínið upp á stjörnuhimininn.  Næstu 3 árgangar á eftir voru einnig í þessum sama gæðaflokki en síðan hefur vínið ekki náð sömu hæðum (kannski vegna þess að þroskunarferlið breyttist þegar þeir hættu að nota amerísku eikina?).
Ég eignaðist nýlega nokkrar flöskur af hinum frábæra 1997-árgangi. Kaupunum fylgdi smá áhætta því mögulegt var að vínin orðin of gömul.  Sú fyrsta var aðeins komin af léttasta skeiði en engu að síður mjög góð.  Flaska númer tvö var ónýt – tappinn kom úr í mörgum molum og vínið var eins og sveskjusafi.  Þriðja flaskan var hins vegar stórfengleg og vonandi verður sú fjórða og síðasta í sama gæðaflokki.
Chateau St. Jean Cabernet Sauvignon Sonoma County Cinq Cepages 1997 er djúprautt, með mikla dýpt, vel þroskað að sjá.  Í nefinu finnur maður pipar, anís , vindlakassa, plómur og útihús.  Í munni er pipar, anís, kaffi, plómur og vindla – mikill ávöxtur, silkimjúk tannín, góð fylling og gríðarlangt og gott eftirbragð.  Stórkostlegt vín!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook