Þetta er í fyrsta sinn sem ég smakka vín úr þrúgunni Bobal. Vínið sem hér um ræðir kemur frá bænum Casas de Benitez í Cuneca-héraði í Castile-La Mancha á Spáni. Vínviðurinn mun vera yfir 70 ára gamall (eldri vínviður gefur yfirleitt af sér betri vín). Vínið er látið liggja í 20 mánuði á stórum, frönskum eikartunnum og alls var framleiðsla þessa árgangs rúmlega 2.100 flöskur.
Mikaela Bobal 2012 er rúbinrautt á lit, unglegt með ágæta tauma. Í nefinu finnur maður hindber, jarðarber, pipar og kryddjurtir. Í munni eru þægileg tannin, ágæt sýra, sæmilegur ávöxtur. Vínið er þurrt, með þægilegu berjabragði – minnir aðeins á pinot noir. Vantar aðeins fyllingu – þarf sennilega að þroskast aðeins betur til að njóta sín að fullu. Hentar vel með íslenska lambinu. Spennandi vín – 87 stig. (4.200 kr)