Bræðralagsvín

Elsta starfandi víngerð Bandaríkjanna er staðsett í New York-ríki.  Víngerðin Brotherhood var stofnuð árið 1839 og framleiddi lengst af vín búin til úr þrúgum af ættinni Vitis Labrusca, sem í 19. aldarstíl voru krydduð með ýmsum kryddjurtum.  Vitis Labrusca er vínviður sem hefur vaxið villtur í N-Ameríku, einkum á austurströndinni.  Hann þykir ekki alveg jafn góður til víngerðar og evrópska ættkvíslin Vitis Vinifera og er sums staðar talinn til illgresis. Víngerðin lifði af bannárin í Bandaríkjunum með því að búa til messuvín fyrir kaþólsku kirkjuna. Það var þó ekki fyrr en núverandi eigandi keypti víngerðina árið 1987 að farið var að rækta hefðbundnar þrúgur úr Vitis Vinifera á vínekrum á Long Island og vínin urðu nútímaleg.  Vínin eru væntanleg í hillur Vínbúðanna á næstunni.
Brotherhood New York Chardonnay Premium Selection 2014 er gullið á lit, unglegt, með ágæta tauma.  Í nefinu er sítrus, perur, eik, nýslegið gras og hvítur pipar.  Í munni er keimur af greipaldin, ágæt sýra, smá eik, perur og hunangsmelónur, skortir þó aðeins fyllingu.  Prýðilegt með fiski, salati eða eitt og sér. Góð kaup (2.490 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook