Víngerð á sér langa sögu á Ítalíu, einkum í Toskana-héraði. Víngerðin sem Ruffino-frændurnir Ilario og Leopoldo stofnuðu fyrir tæpum 140 árum nær varla að teljast til hinna gömlu í héraðinu, en á sér engu að síður merka sögu. Þeir komust strax upp á lag með að framleiða gæðavín og orðspor víngerðarinnar breiddist hratt út. Árið 1890 fann hertoginn af Aosta sig knúinn til að leggja í langt ferðalag yfir Alpafjöll til að kynnast þessum nafntoguðu vínum, og hann varð svo hrifinn að hann útnefndi víngerðina sem konunglega vínkaupmenn fyrir Ítölsku konungshirðina. Til að minnast þessa hóf víngerðin framleiðslu á víni sem þeir nefndu Riserva Ducale. Fyrsti árgangurinn leit dagsins ljós árið 1927 og vakti mikla lukku, og vínið hefur síðan þá verið á stalli með þekktustu vínunum frá Chianti Classico í Toscana. Uppistaðan í víninu er að sjálfsögðu Sangiovese-þrúgan, en fimmtungur 2012-árgangsins er Cabernet Sauvignon og Merlot.
Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2012 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með fallega tauma. Í nefinu finnur maður rauð ber, pipar, leður og tóbak. Í munni eru mjúk tannín, ágæt sýra og góður ávöxtur, þurrt með smá rósmarínkeim í lokin. Gott matarvín sem hentar vel með nauti, lambi, grillmat hvers konar og ostum. Góð kaup (2.999 kr).
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]