Eins og ég sagði ykkur frá um helgina þá eru Ripasso-vín gerð úr þrúgum sem hafa áður verið notaðar í Amarone. En áður en þrúgurnar eru notaðar í Amarone þá eru þær þurrkaðar þar til þær verða nánast að rúsínum. Við þessa þurrkun verður miklu meiri ávaxtasykur í þeim og þegar gerjun lýkur þá getur verið nóg eftir af ávaxtasykri í þrúgunum, sem er ástæðan fyrir því að hægt er að gerja þær aftur og gera úr þeim Ripasso. Amarone eru hins vegar í allt öðrum gæðaflokki en Ripasso. Bílaáhugamenn myndu líklega segja að munurinn sé svipaður og þegar Audi A2 er borinn saman við A8 eða þaðan af stærri bíl. Þetta eru þungavigtarvín sem þarf helst að geyma í nokkur ár svo þau fari að njóta sín, en góð Amarone geta auðveldlega þolað 20-30 ár í kjallaranum, og einföld Amarone batna líka við 5-10 ára geymslu. Útkoman verður stórfenglegt vín sem hægt er að drekka með stórum steikum, góðu súkkulaði eða þroskuðum ostum. Athugið þó að þar sem sem þrúgurnar eru þurrkaðar fyrir gerjun, þá fæst minna magn af víni út úr þrúgunum en væru þær gerjaðar ferskar, sem gerir vínin dýrari í framleiðslu. Fyrir gott Amarone þarf maður því að borga nokkuð meira en fyrir venjulegt rauðvín, en það er yfirleitt vel þess virði, og það ættu allir að eiga eina Amarone í vínkælinum til að geta tekið upp þegar mikið stendur til og maður vill gera vel við sig.
Tommasi Amarone della Valpolicella Classico 2012 er gert úr þrúgunum Corvina, Rondinella, Corvinone og Oselete. Það er látið liggja í minnst 2 ár á eikartunnum og svo 1 ár í flösku áður en það er svo sett í sölu. Vínið er kirsuberjarautt á lit, ungt, með fallega tauma. Í nefinu kirsuber, plómur, súkkulaði, pipar og ögn af negul. Í munni gnótt tannína, sýran tekur ágætlega í, kirsuberja- og súkkulaðikeimur sem heldur sér vel fram í eftirbragðið. Smellpassaði með lambalæri og myndi eflaust fara vel með nauti og villibráð. Mjög góð kaup (5.799 kr)
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]