Brindisi nefnist hafnarborg í Pugliu (sem er staðsett sunnarlega á Ítalíu, nánar tiltekið hásinin á ítalska stígvélinu) sem er kannski ekki sérstaklega þekkt fyrir gæðavín. Brindisi hefur þó aðra (og kannski þekktari) tengingu við vín, nefnilega þá að í óperuheiminum er Brindisi samheiti drykkjusöngva, þar sem ein persónan syngur einsöng og hvetur aðra til að taka undir og skála. Brindisi hefur líka verið eigið DOC frá árinu 1979, og þar eru gerð rauðvín úr Negroamaro og Malvasia Nera, og rósavín úr sömu þrúgum, en lítið fer hins vegar fyrir hvítvínsframleiðslunni þó einstaka vín úr Chardonnay og Pinot Grigio geti ratað til hins almenna neytanda. Um daginn kynnti ég ágætis vín úr þrúgunni Malvasia Nera, og hér er komið annað vín sem er að mestu leyti gert úr sömu þrúgu, þó það innihaldi líka Negroamaro.
Corte Ottone Brindisi Riserva 2013 er dökkkirsuberjarautt á lit, unglegt og býr ekki yfir mikilli dýpt, samt ágætir taumar. Í nefinu finnur maður kirsuberjasultu, jafnvel rabarbarasultu, örlítið súkkulaði og leður. Í munni er vínið þurrt en frísklegt, með ágæta sýru og miðlungstannín. Vottar aðeins fyrir rabarbarasultunni í ágætu eftirbragðinu. Hentar vel með grilluðu lambakjöti (og öðrum grillmat). Ágæt kaup (1.999 kr). Notendur vín-appsins Vivino gefa þessu víni að meðaltali 3.7 stjörnur.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]