Sú þrúga sem nýtur sín langsamlega best í Argentínu er Malbec, þar sem hún gefur af sér kröftug og bragðmikil vín. Víngerð í Argentínu hefur fleygt mjög mikið fram undanfarinn áratug og nú eru ein öruggustu kaupin í vínbúðunum einmitt malbec frá Argentínu – t.d. Alamos, Catena Zapata, Dona Paula Estate og Trivento Golden Reserve (það koma upp 25 tegundir þegar flett er upp á heimasíðu Vínbúðanna), að ógleymdum toppvínum á við borð við Achaval Ferrer Quimera og svo víni dagsins – Catena Alta. Þetta vín er flaggskipið frá víngerð Nicholas Catena og fjölskyldu hans í Mendoza, og í það fara aðeins þrúgur af bestu vínviðum Catena. Vínin eru 18 mánuði á tunnum úr franskri eik áður en þau fara svo á flöskur. Þau eru tilbúin til neyslu eftir 2-3 ár en hafa líka gott af því að fá að liggja og þroskast í nokkur ár.
Catena Alta Malbec 2013 er dökkrúbínrautt, unglegt. Fallegir taumar. Í munni finnur maður sólber, fjólur, tóbak, pipar, leður og vanillu. Í munni eru mikil tannín og góð sýra, en vínið er samt mjúkt, eftirbragðið frábært með súkkulaði og berjum en mætti vera aðeins lengra. Frábært vín. (4.498kr)
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]