Áfram heldur fundargerðin frá fyrsta vínklúbbsfundi vetrarins…
Fjórða vínið reyndist einnig vera Pinot Noir (eins og flestir voru farnir að reikna með), að þessu sinni frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið frá Willamette Valley í Oregon. Flestir hafa væntanlega heyrt talað um Napa Valley í Kaliforníu, hvaðan mörg af bestu vínum Bandaríkjanna koma, en Willamette Valley er ekki síður mikilvægur í Bandarískri víngerð, þó nafn þessa svæðis sé ekki jafn þekkt. Willamette Valley er í norðurhluta Oregon-ríkis, um dalinn rennur samnefnd á sem síðan rennur út í Columbia-ána, sem er á mörkum Oregon og Washington-ríkis. Í norðurenda dalsins er borgin Portland, og í dalnum búa um 70% allra íbúa í Oregon. Í þessum dal er kjöraðstæður fyrir Pinot Noir-þrúguna – sumrin heit og þurr en veturnir blautir og kaldir. Það frystir þó ekki nema á svona 25 ára fresti og ekki oft að uppskerubrestur verði af völdum hagléls, sem stundum leikur franska vínbændur í Bourgogne grátt. Víngerð J. Christopher er í héraði sem nefnist Ribbon Ridge AVA, en í Willamette Valley eru 6 skilgreind AVA (American Viticultural Area).
J. Christoper Pinot Noir Willamette Valley 2011 er ljóskirsuberjarautt á lit, með góða dýpt, fallegt í glasi. Í nefinu er góður ávöxtur, dökk kirsuber, eik, leður og krydd. Í munni er nóg af tannínum og ágæt sýra. Vínið er mjúkt en kryddað með mikið eftirbragð, vantar þó aðeins meiri fyllingu til að komast á flug. Mjög gott vín engu að síður . Vínklúbburinn gefur víninu 91 stig (5.750 kr).
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]