Við fjölskyldan skruppum til Tenerife í sumarfrí, sem er kannski ekki í frásögur færandi, en þar fann ég nýtt húsvín handa mér. Ég sá líka fyrir mér hvernig úrvalið yrði í hillum verslana ef leyft verður að selja léttvín í matvöruverslunum (verður væntanlega tiltölulega lítið og myndi gera litlum birgjum erfitt að koma sínum vörum að, en það er efni í annan pistil). Í hillunum í Tenerife voru eingöngu spænsk vín á boðstólum, og langflest í lægstu verðflokkunum. sum kannaðist maður við en önnur ekki. Eitt þekkti ég úr hillum vínbúðanna en viðurkenni að það er nokkuð liðið síðan ég prófaði þetta vín síðast. Við eftirgrennslan komst ég að því að þetta vín fær 88 stig hjá Wine Spectator. Ekki spillti fyrir að flaskan kostaði aðeins 6,50 evrur eða rétt um 850 krónur. Við kipptum með einni flösku og urðum mjög hrifin, svo mjög að ég keypti nokkrar í Fríhöfinni og nú er þetta nýtt húsvín hjá mér!
El Coto de Rioja Crianza 2012 er kirsuberjarautt á lit, fallegt í glasi með fína tauma, unglegt. Í nefinu finnur maður angan af kirsuberjum, granateplum, kryddum og auðvitað eik. Í munni er vínið í góðu jafnvægi, ágæt tannín og sýra, góð fylling, með góðu berjabragði sem er aðeins kryddað með súkkulaði- og eikartónum í lokin, líka smá tóbak. Ágætt matarvín, einkum fyrir fuglakjöt og grilli, einnig ostum. Mjög góð kaup (kostar 1.999 kr í Vínbúðunum en aðeins 1.399 kr í Fríhöfninni, ein bestu kaupin þar).
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]