Kominn tími á Amarone

Í síðustu færslu sagði ég ykkur frá ofur-Toskönum og ofur-Feneyingum, en hin síðarnefndu eru framleidd með s.k. Ripasso-aðferð.  Önnur tegund víngerðar á sér þó lengri sögu í héruðunum kringum Veróna og Feneyjar, nefnilega s.k. Appassimento-aðferð.  Þá eru vínin gerð úr þrúgum sem hafa verið þurrkaðar í mislangan tíma, allt frá nokkrum dögum upp í 6 mánuði, allt eftir þroska þrúganna þegar þær eru lagðar til þurrkunar.  Safinn sem úr þeim kemur eftir þessa þurrkun er mun sætari og bragðmeiri en safinn úr óþurrkuðum þrúgum.  Safinn er síðan gerjaður og útkoman eru mjög bragðmikil vín.  Þessi aðferð á sér langa sögu, eins og áður segir, og henni er lýst í ritum frá tímum Rómverja.  Þeir vildu reyndar hafa vínin sín sæt og bragðmikil, og var gerjunin yfirleitt stöðvuð áður en gersveppirnir höfðu náð að gerja allan ávaxtasykurinn.  Vínin voru því ekki jafn sterk að áfengisprósentu og þau ella hefðu orðið.  Þessi sætu vín kallast Recioto og eru framleidd enn í dag, en flokkast nú frekar sem eftirréttavín.  Á síðustu öld færðist í vöxt að leyfa gersveppnunum að klára gerjunina og urðu vínin þá þurr með hátt áfengismagn, yfirleitt um og yfir 15%.  Amarone-vín eru framleidd með þessari aðferð og teljast þau vín nú til flaggskipa þessa vínræktarhéraðs.  Það þarf töluvert meira af þrúgum til að búa til vín með þessari aðferð, og því óhjákvæmilegt að þessi vín séu í dýrari kantinum, en þau eru nær alltaf þessi virði að borga vel fyrir þau!  Það er þó ekki víst að þessi bragðmiklu vín séu öllum að skapi, en þau geta verið nokkuð frábrugðin öðrum ítölskum rauðvínum.  Það er þó vel þess virði að reyna, og ef þið viljið prófa Amarone, þá er líklega ekki best að byrja á ódýrasta víninu (best að taka strax fram að ég hef ekki prófað ódýrasta vínið í þessum flokki, af þeim sem fást í vínbúðunum, en ég leyfi mér að jafna þessu við að fyrir þá sem eru að smakka rauðvín í fyrsta sinn ættu ekki að velja sér ódýrasta rauðvínið, heldur fara beint í eitthvað aðeins betra, til að verða ekki fyrir vonbrigðum). Þessi vín eru nær alltaf gerð úr þrúgunum Corvina, Rondinella og Molinara, sem eru aðalþrúgurnar í þessu héraði.
Á dögunum var staddur hér á landi Sandro Boscaini, stjórnarformaður Masi-víngerðarinnar og formaður Federvini – samtaka víngerða á Ítalíu.  Hann hefur átt stóran þátt í að lyfta Amarone-vínunum á þann stall sem þau eru á í dag, og kallast stundum „Mr. Amarone“.  Masi og Ölgerðin buðu til vínsmökkunar þar sem smökkuð voru nokkur Amarone-vín og óhætt að segja að sú smökkun hafi verið eftirminnileg fyrir viðstadda.  Því miður eru ekki öll þessi vín fáanleg í vínbúðunum, en sem betur fer er þar að finna hið frábæra Costasera.  Nafnið Costasera þýðir „hlíðin sem snýr að kvöldinu“ og vísar frekar til landslags en nafns á vínekrum.  Við fengum að smakka bæði 2011 og 1997 árgangana og það var töluverður munur á þessum vínum, en Amarone-vín bæði þola og verðlauna þolinmæðina sem fæst með því að geyma vínin og leyfa þeim að þroskast í nokkur ár, jafnvel 15-20 ár!  Við fengum líka að smakka Masi Amarone frá 1988, sem var líklega nýkomið af toppnum og á ekki marga áratugi eftir (silkimjúkt og gældi við góminn, en var aðeins búið að missa slagkrafinn).  Það sem mér fannst þó mest spennandi að prófa var Vaio Armaron Serego Alighieri, sem er aðeins gert í góðum árgöngum og m.a. lagt í tunnur úr kirsuberjavið (ekki bara eikartunnur).
Masi Costasera AmaroneMasi Costasera Amarone della Valpolicella Classico 2011 er rúbínrautt, unglegt með góða dýpt og fallega tauma.  Í nefið kemur yndisleg angan af kirsuberjasultu, leðri og tóbaki.  Í munninn koma góð tannín og sýra, mikil fylling.  Flauelsmjúkt en tekur samt aðeins í.  Langt eftirbragð með smá súkkulaði og lakkrístónum.  Mjög góð kaup þrátt fyrir verðið (6.250 kr), því eins og segir ofan, þá kosta Amarone meira en önnur vín, og hér fær maður klárlega það sem maður borgar fyrir.  Gott með kjöti (naut, villibráð) og góðum ostum (parmesan, pecorino, jafnvel gorgonzola).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook