Það er ekki á hverjum degi að vín fær hæstu einkunn hjá mér og yfirleitt eru þau teljandi á fingrum annarrar handar þau vín sem fá hæstu einkunn á ári hverju. Ég hef á undanförnum vikum fjallað um nokkur vín frá Perelada í Katalóníu á Spáni og þetta vín er tvímælalaust það besta sem ég hef smakkað frá þeim framleiðanda og eitt það besta sem ég hef smakkað á þessu ári. Vínið er frá héraðinu Emporda í Katalóníu og er einnar ekru vín, þ.e. þrúgurnar koma allar af sömu vínekrunni, sem nefnist La Garrica. Vín er gert úr þrúgunni Samsó, sem er katalónska heitið á þrúgunni Carignan. Það er látið liggja í 19 mánuði á nýjum Bordeaux-tunnum (225 lítra tunnur) úr amerískri eik áður en það fer svo á flöskur.
Perelada Finca La Garrica 2011 er djúprautt á lit, unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður leður, lakkrís, ameríska eik, blek og dökk kirsuber, smá balsamedik og pipar. Í munni er góð tannín og sýra, mjög gott jafnvægi og mikil fylling. Lakkrísinn og kirsuberin koma vel fram í bragðinu og í eftirbragðinu finnur maður dökkt súkkulaði og vanillutóna. Vín fyrir stórar steikur. Frábær kaup (4.390 kr).
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]