Perelada Garnatxa Blanca Emporda 2013

Það er alltaf gaman að prófa ný vín og nýjar þrúgur sem maður hefur ekki smakkað áður.  Ég minnist þess ekki að hafa smakkað hvítvín úr þrúgunni Garnatxa Blanca (það er katalónska nafnið á þrúgunni – önnur nöfn eru Garnacha Blanca og Grenache Blanc).  Þessi þrúga er yfirleitt notuð til íblöndunar í hvítvín frá Rhone og Norður-Spáni, einkum við þrúguna Rousanne, og er mikið notað í hvítvín frá Chateauneuf-du-Pape.  Þessi þrúga mun vera sú fimmta algengasta af hvítum þrúgum í Frakklandi.  Vínið sem hér um ræðir kemur frá hinum ágæta framleiðanda Perelada í Katalóníu, nánar tiltekið í Emporda-héraði.  Ég hef prófað nokkur rauðvín og cava frá þessum framleiðanda og verið mjög hrifinn (það er einn 5 stjörnu dómur á leiðinni inn á síðuna…), en þetta vín nær ekki alveg sömu hæðum og þessi rauðu.
Perelanda GB 2013Perelada Garnatxa Blanca Emporda 2013 er strágult á lit, fallegt í glasi.  Í nefinu er nokkuð áberandi spírakeimur (vínið er 13,5% að áfengismagni), sólberjalauf, steinefni og græn epli.  Í munni eru sömu tónar á ferðinni, vínið er þurrt, með epla- og melónukeim. Vínið nær hins vegar ekki miklum hæðum og sýnir kannski hvers vegna þessi þrúga er helst notuð í blönduð hvítvín? Í dýrari kantinum (2.685 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook