Columbia Crest Merlot Grand Estates 2013

Fljótlega eftir að ég fór að fá áhuga á vínum varð ég hrifinn af vínunum frá Columbia Crest, og sú hrifning hefur ekkert minnkað með árunum.  Reyndar liðu mörg ár án þess að ég smakkaði þessi vín á meðan ég bjó í Svíþjóð en ég var feginn að sjá að þau hafa lifað af þá miklu endurnýjun sem átti sér stað í vöruúrvali vínbúðanna þann tíma sem ég bjó úti. Columbia Crest er dótturfyrirtæki Ste. Michelle vínsamstæðunnar, sem framleiðir meira en helming alls víns sem framleitt er í Washington-ríki.  Columbia Crest framleiðir að mestu leyti vín á verði sem eru vel viðráðanleg fyrir hinn almenna neytanda, en einnig koma þaðan hágæðavín sem þó eru ódýrari en flest vín í sama gæðaflokki.  Columbia Crest Cabernet Sauvignon Columbia Valley Reserve 2005 var til að mynda valið vín ársins hjá Wine Spectator (kostaði þá $27).
columbia crest merlot 2013Columbia Crest Merlot Grand Estates 2013 er dökkrautt á lit, ungt, með ágæta dýpt.  Það gefur af sér angan af sólberjasultu, leðri, kirsuberjum og einnig vott af krækiberjum.  Þarna má einnig finna vanillu og súkkulaði (fylgir oft amerísku eikinni) og í munni finnur maður sömu tóna, stinn tannín og góða sýru.  Vínið er í góðu jafnvægi og heldur sér vel.  Mjög góð kaup (2.798 kr). Gott með nautasteikinni.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook