Í síðasta pistli fjallaði ég um cabernet sauvignon frá víngerðinni Dona Paula í Mendoza í Argentínu. Los Cardos nefnst einfaldasta línan frá þessari ágætu víngerð, og í þeirri línu er framleidd 7 mismunandi vín, en 4 þeirra eru fáanleg í Vínbúðunum – 2 rauð og 2 hvít. Rauðvínið sem fjallað er um í dag er hreint Malbec, sem er eiginlega orðin einkennisþrúga argentískra rauðvína, þó að uppruni þessarar þrúgu sé í Frakklandi þar sem hún nýtur sín best í Cahors-héraði (því miður er ekkert hreint franskt malbec-vín fáanlegt í Vínbúðunum, skv. vef Vínbúðanna). Argentískur malbec er venjulega ávaxtaríkur, jafnvel sultukenndur og mjúkur á meðan sá franski er hrjúfari, frísklegri og með ferskara berjabragð.
Dona Paula Los Cardos Malbec Mendoza 2015 er dökk-fjólurautt á lit, unglegt, með angan af kirsuberjum, fjólum, krækiberjum og kakói. Í munni er vínið pínu hrátt, með stinn tannín og aðeins of mikla sýru, vantar aðeins upp á jafnvægið. Gengur vel með grillmatnum en mikilvægt að það sé ekki of kalt. 1.965 kr í Vínbúðunum.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]