Perelada 3 Fincas Crianza

Í norð-austur horni Katalóníu er hérað sem nefnist Emporda.  Í Castilla Perelada í Emporda hafa verið framleidd vín frá því á miðöldum (það er kannski ekki svo langur tími þegar um Spán er að ræða?) og enn eru þar framleidd gæðavín.  Um daginn smakkaði ég vín sem kallast vondi nágranninn (á eftir að segja ykkur frá því) og varð mjög hrifinn.  Í þetta sinn smakkaði ég Crianza frá Castilla Perelada, en þetta vín er gert úr þrúgunum Garnatxa (28%), Merlot (27%), Cabernet Sauvignon (19%), Syrah (13%), Samsó (9%), Monastrell (4%). Samsó er annað nafn á þrúgunni Carinyena eða Carignan, en ekki má rugla Samsó við hina frönsku þrúgu Cinsault þó nöfin hljómi svipuð. Ástæða þess að þrúgan skal heita Samsó er til að forðast það að rugla víninu saman við svæðið Carinena í Aragón á Spáni.

Perelada 3 Fincas CrianzaPerelada 3 Fincas Crianza er gert úr þrúgum af þremur vínekrum Perelada (þaðan kemur nafnið 3 Fincas) og er dökk-rúbín rautt á lit, unglegt en örlar aðeins á byrjandi þroska. Ágæt dýpt.  Í nefi finnur maður lakkrís, pipar, kirsuber, leður, sólber og smá krydd.  Í munninn koma stöm tannín, ágæt sýra, sólberja-lakkrískeimur í bragðinu og sólberin halda sér vel í eftirbragðinu.  Vínið er ennþá ungt og þyrfti aðeins að fá að taka sig betur áður en það kemst á toppinn (þarf kannski 2-3 ár til viðbótar).  Hörkugott nautavín – góð kaup (2.385 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook